Bloggfærslur mánaðarins, júní 2018

Á haugum

Á haugum
 
 
Þá grufla ég áfram í tímans gráa haug,
gullin mín þar liggja hér og þar.
Finnst ég sjái grilla í gamlan draug,
óglöggt man þó hvernig, hvort og hvar.
 
Ég snýst í hringi í kringum þar og hér,
hendi illa reiður oft á flestu.
Þarna sé ég slitna mynd af þér,
þér sem gafst mér árin týndu og bestu.
 
Það leynist margt í sorpinu nú sé,
þó sé það frekar leiðingjarnt að leita.
Að því góða er tíminn lét í té,
og minningana tré með því að skreyta.
 
Í raun það stoðar lítið um að þrátta,
það er ei margt sem annars er til boða.
Og kannski með því betur mig ég átta,
hvernig mér tekst öllu að stefna í voða.
 
Svo ef þig vantar mig í heimsókn væna,
þá veistu hvar þú auman finnur mig.
Á minninganna haug hvar ég skal mæna,
á allt sem kveikir minningar um þig.

Júdas (fyrir bakþankana)

Júdas (fyrir bakþankana)

 

Þú hélst mig vera gull en sjálfur var ég silfur,

svikull eins og glampinn sem skín í augum mér.

Yfirborð mitt kært en í höfði mínu kylfur

kaldlyndis sem rætur á í hjartanu á mér.

 

Svo ég lagði lúmskur net mín í myrkan sjó 

og meinti góðan afla í eigin vasa.

Fannst af kærleik, von og trú komið meira en nóg,

hinn kæri skyldi í hvelli þjást og hrasa.

 

Veröldin er köld og lífið jafnan hverfult,

ég kýs mér eigin leiðir þar sem heiðurinn er minn.

Í mínu ríki er aðeins einn sem ræður,

þó rói ég í einsemd og feli spegilinn.

 

Og á meðan ég tel silfur mitt í sælu,

mun spámaðurinn leiddur í prísundina inn.

Og ég brosi og ég hlæ í hamingju minni,

en hef ekki hugmynd um að gálginn sé minn.

 

 


Hughrif í Júní

Hughrif í Júní
 
Draugabær, flækja hugsana minna.
Niðurhal af fúlustu angist.
Margrætt net fangar fætur mína.
Hér virðist ég fastur, negldur á kross vanans.
Get samt farið í allar áttir,
eins og ljósgeislinn,
úr vasaljósinu.
Áhaldið í hendi mér.
 
Fúafen, draumarnir löngu farnir.
Upphala gömlum gerðum,
í firrtri von um úrlausn.
Skilgreining geðveikinnar.
Endurtekningin sem leiðir
ætíð til þess sama.
Svo glögglega viðeigandi
að það tekur því ekki að tala meira um það.
 
Sorgin hefur bugað þennan trúð.
Í það minnsta á degi sem þessum.
Á degi sem inniheldur stillu sem ég læt mér nægja.
Ég á hér heima,
bý mér ból meðal þögulla vitna.
Tel mér ekki til tekna
þessa stöku tilburði
til upphafningar og mikilmennsku.

MOLDARBARN

 
Moldarbarn
 
 
Ég er fæddur í myrkri og held ég sé holunnar barn,
hálfur er gerður úr moldu og restin úr hálmi.
Haldreipi tilveru minnar er takmarkið sjálft,
um að tvístrast ekki í eindir undir hulinshjálmi.
Og halda fast í reipið, feta mig hærra,
upp í frelsið og gera líf mítt stærra.
 
Ég hef trúað að aldrei ég verði verkunum meiri,
þó eru verk mín að mestu grafin og gleymd.
Það virðist vera að ástin sé verkunum ofar,
sé verkuð fremur í tímans stóru geymd.
Ég reyni að sjá í dögum verka villu,
vera til friðs og skreyta mína hillu.
 
Mér finnst vandi að sjá gegnum rimlanna röðul á stundum,
reyni að eigja skímu myrkrinu í.
Pírandi augun og pota í það sem ei hreyfist,
pæli í engu og sumu og öllu því.
Þrái að þroskast mega á lífsins vegum,
það murrar í huganum ólundarlega tregum.
 
Já ég er fæddur af moldu og því er ég moldarbarn,
ég móki í holunni einn og held á mér hlýju.
Kanna hvort von sé á góðum og glæði minn eld,
gæfan hún hjaðnar svo vaxið hún megi að nýju.
Víst er að sú blessun er svikul og stál mun sverfa,
og svo mun ég aftur til minnar moldar hverfa.

Hvurn sinn fingur

Hvurn sinn fingur

Við verðum til sem brum á lífsins tréi,
tvístrumst svo í óteljandi áttir.
Reynum saman reynslunni að safna,
sem rennur inn um óteljandi gáttir.
Hafa og gera gott og illu hafna.
 
Lifið er bara leikur,
lifðu og vertu keikur.
 
Við stöndum jafnvel strauminn upp í hné,
stútfull af okkur sjálfum, okkar mætti.
Oftast nær þó skrattinn nema skammt,
og skelfir okkur hvert með sínum hætti.
Er mætir ólán lífsins lúmskt og rammt.
 
Lífið sjálft sig lofar,
ólani öllu ofar.
 
Gott er að hafa Guð í lífí sínu.
Þá gerast undrahlutir sér og sjálfir.
Og það þó hvergi komum við þar að,
þroskast hlutir í heilt sem voru hálfir.
Lífsins skrifast ljóðrænt fagurt blað.
 
Um sjálft sig lífið syngur,
sverfist um hvurn sinn fingur.
 
Þú ert sjaldnast einn í köldu amsturs stríði,
ef eirir þú þeim sem þér vilja vel.
Þér stendur æ til stuðnings englaher,
með opinn faðm og vináttunnar þel.
Sem vilja vera í lífinu hjá þér.
 
Lífið til láns er fallið,
ljúft er gæfukallið.

 


Tannrótarbólgublús (texti)

TANNRÓTARBÓLGUBLÚS

 

Þitt vatnskennda höfuð er veruleikafirrt,

eymdin hefur fyrir löngu örlög þin birt.

Sjúklega sexý í augunum á þér

en sjarmi þinn er ekki stærri en krumpað krækiber.

 

Þú hrörlega hræ af manni,

ert sjúkur með sanni.

 

Þú dansar á línunni aleinn og sér,

á lífið þú herjar með óvígan her.

Þegar gríman er fallinn þá ertu ekki neitt,

getur ekkert aðhafst og þar með engu breytt.

 

Þú vonlausa tilfelli af fír,

ert í röngum gír.

 

Þú sekkur eins og svikari í eigið lygafen

og líklega ertu fæddur með kolvitlaus gen.

Grefur þína gröf við eigið heimahlað.

Það er svo augljóslega eitthvað mikið að.

 

Þú týpíska tilfelli um tjón

ert leiðindaflón.

 

Hvað er svo til ráða þegar allt er farið hjá

og ekki nokkur hræða til að stóla á ?

Þú einn mátt þá húka í þinni skreyttu skel,

í einveru tærist og hverfur í hel.

 

Sex fetum neðar þá býrð

og ei aftur snýrð.


Tannrótarbólgublús

 

Þá má kynna demóútgáfa af laginu

 

TANNRÓTARBÓLGUBLÚS

 

Hér er á ferð Lalli Frændi sem aldrei linnir látum.

Lagið leynist í spilara síðunnar hér á hægri hönd.

 

Góðar stundir.

 


Hringur

Lalli frændi sendi demó af lagi sínu

 

HRINGUR

 

Það birtist hér í spilara síðunnar á hægri hönd.

 

Góðar stundir...


Ungdómsvísa

Ungdómsvísa

 

Allir ungu drengirnir eru að tapa sér,

þeir vilja vera svertingjar og mynda gettóher.

Fá sér hundrað húðflúr og dópa út í eitt

og foreldrarnir skilja ekki neitt.

 

Allar ungu stúlkurnar eru að missa það,

gata sig og hola og ég veit ekki hvað.

Þær klæða sig í hóruföt og djamma dag og nótt,

á níðurtúrum pilla sig og hafa um sig hljótt.

 

Þessi samtími er snúinn og allur bjagaður.

Þessi æskulýður illa agaður.

Þessi þjóð, þessi þjóð ...

elur viðbjóð.

 

Börnin föst við tölvurnar, augun eru sljó.

Full af Rítalíni og apótekið hló.

Félagsfræðipakkinn framleiðir pakk,

sem þykist vera emminemm eða túpakk.

 

Þessi samtími er fokkd og farinn í steik.

Börnin illa menntuð, ríða og fara í sleik.

Þessi þjóð, þessi þjóð ...

elur viðbjóð.

 

Eiturlyfjasalarnir ganga um skólans lóð,

skilja eftir sig dauða og eiturslóð.

Klámið er í algleymingi og kveikt á hverjum skjá.

Mamma, pabbi og litlu gullin horfa saman á.

 

Þessi samtími er steiktur og farinn á ská.

Börnin ganga frá okkur og við vitinu frá.

Þessi þjóð, þessi þjóð ...

elur viðbjóð.

 

 

 

 

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband