Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Útöndun nýrómansins forna

Ég hef áður ritað í þessu bloggi um hið nýrómantíska æði mitt og nokkura vina minna sem skall á mér fyrir tvítugsaldurinn. Þetta voru ansi skemmtilegir tímar og mikið ort og rýnt í skruddur, dálítið fyndið að hugsa til þess að skömmu eftir að þessu tímabili fór að halla, spratt kvikmyndin "Dead poets society" upp kollinum.

Hér læt ég fylgja eitt af myrkari ljóðum sem ég skrifaði (eða orti ef maður vill vera fínn) á þessum tíma. Fyrir víðlesnari menn býst ég við að berklaveikir orðsnillingar og vofur nýrómatíkurinnar sveimi um á milli lína. Jafnvel að hægt sé að bera kennsl á einhverra þeirra. Njótið vel...

Grafarljóð

Grafðu þig dýpra í gjána,
gjöf mín í djúpinu´ er falin.
Myrkur hins glottandi mána,
mætir þér niðdimma nótt.
Mörkin á illskunni er alin;
angurvær meyja við ána,
vitjar um von sína dána,
vindurinn þýtur svo hljótt.

Grafðu þig dýpra í gjána,
gjöf muntu hljóta að launum.
Þorstinn er vekur upp þrána,
þjaka mun vonina skjótt.
Reynslan er falin í raunum,
roði þíns hjarta mun blána.
Gæfa þín litrík mun grána,
í nístandi helkaldri nótt.




Lítil klausa um taugaveiklaðan mann

Verandi áhugamaður um orð og samsetningu orða hef ég gengið í gegnum allskyns tímabil. Flest algild sannindi hafa fölnað í tímans rás og baráttan við heild og eitthvað sem mætti kallast "stíl" heldur áfram. Litla klausan um taugaveiklaða manninn er frá svona tímabili. Njótið heilla !

LÍTIL KLAUSA UM TAUGAVEIKLAÐAN MANN 

Vakinn og sofinn,
daufur og dofinn.
Á ystu nöf,
við eigin gröf,
gengur hann.
Skyggnist um,
með stjörfum augunum.
Hann ferðast einn,
hér er ei neinn.
Það veit hann vel,
en þandar taugar flytja huga boð,
um hættur og vonda hluti, illa menn.

Óræðir skuggar flökta inn á augnlokunum,
í hvert sinn sem hann blikkar augunum.
Útlínur martraða sem bíða færis.

Hann man ekki hvers vegna hann kom hingað eða hvaðan,
en það er eins og hann rámi í,
að hann sé á leiðinni eitthvað.

- Lárus G


AÐ ENDURFÆÐAST SEM GULLFOSS

GULL

Ef ég væri foss væri Gullfoss efstur á óskalistanum.

Draumaprins náttúrunnar með 70 metra fallhæð og fólk frá öllum heimshornum að dást að mér.

Kannski í næsta lífi endurfæðist ég sem ísdröngull úr Langajökli og flýt niður gilið sem hundrað þúsund regndropar.


Rætur

                                  RÆTUR                                    

Í geislandi birtu þessara nátta;
gríp ég tunglið með augunum,
melti það með hjartanu,
og í huga mér fæðist sú hugsun,
að hér eigi ég heima.

 


Feitur&Grænn

hr.feitur

Herra Feitur&Grænn getur ekkert að því gert þó svo hann sé svona feitur og grænn. Einn og illa liðinn liðast hann eftir svörtum söndum og kennir í brjósti um sjálfan sig. Hann er útskúfaður af fjöldanum; sker sig úr hvar sem hann kemur. Herra Feitur&Grænn er fullur af skömm og sýtir bitran barndóm sinn. Hann man hlátrasköllin frá hinum krökkunum fyrsta skóladaginn og hvernig stelpurnar hlunnfóru hann í gaggó. Bendingarnar á götum úti þegar hann hættir sér innan um almenning eru óumberanlegar. Hann hefur aldrei farið í sund og þorir ekki í sólarlandaferðir því allir gera grín að honum á ströndinni. Herra Feitur&Grænn er feiminn og dálítið inn í sér en samt hið besta skinn og leit að betri vini og förunaut. Það veit það þó enginn því Herra Feitur&Grænn er alltaf einn. Vill einhver eiga hann ?


Mannkynssaga fyrir byrjendur - Gúnter í neðanjarðarkompunni

Adolf arkaði um neðanjarðarbyrgið og virkaði æstur. Hann talaði ýmist við sjálfan sig eða hrópaði eitthvað út í loftið sem hljómaði sem blanda af skipunum og mumli. Augun galopin og stjörf af margra sólarhringa vöku. Læknaamfetamínið hélt honum í háum gír og það var ekki annað að sjá en að hann væri enn staðráðinn í að sigra heiminn.

Í kringum foringjann þustu undirmenninn ýmist um eða húktu vondaufir út í hornum. Þeir allra daufustu höfðu gefið allt upp á bátinn og voru búnir að drekka frá sér ráð og rænu, ýmist hlógu upp í opið geðið á hvor öðrum eða vældu ámátlega. Daufur ómur byssuskota og sprengja erti hlustirnar.

"Dolli minn...", sagði Gúnter sem alltaf gat fengið foringjann niður á jörðina, "þú verður bara að feisa það að partíið er búið". "Þetta hefur verið drullugaman en þetta gengur bara ekki lengur, við eigum ekki séns". Hann klappaði foringjanum vinalega á öxlina og reyndi að ná í gegnum stjarft blikið. Foringinn var ekki að ná þessu. " Rugl, þvættingur, þvæla"! hrópin fylltu grenið. "Við rústum þessu strákar, ég skal ná þeim öllum, rústa þeim, naga af þeim punginn, hengja þá upp í næsta tré". Viðstaddir hristu hausinn eins varlega og þeim var unnt. Allir vissu hvað aðstæðum leið nema höfuðpaurinn að því er virtist. "En Dolli minn, herinn er sigraður, þeir eru svo nærri að þeir banka á dyrnar, það væri hyggilegast að reyna að komast á brott áður en allt verður um seinan". Löng þögn. "Flýja segirðu" ? foringinn leit píreygður á Gúnter. "Já flýja", sagði aðstoðarmaðurinn að bragði. "Þú átt nóg af seðlum í Sviss og getur lifað eins og kóngur til æviloka; strákarnir fljúga þér þangað sem þú vilt; kýldu á þetta maður í staðinn fyrir að væflast hér í þessari líkkompu."

Hitler starði lengi út í tómið. Loftið var þrungið spennu, dauða og örvæntingu. Skyndilega tekur hann á sig rögg.

"Gúnter, dragðu úr þér tennurnar og láttu Frits tannlækni henda mínum upp í þig. Þær liggja í poka inn í frysti. Ég fékk þær dregnar úr mér fyrir nokkrum árum. Farðu svo með Evu og taktu bláu pillurnar með þér. Ég er búinn að ræða málin við hana. Hún hefur ekkert á móti þessu enda löngu orðin rugluð og þreytt." Gúnter hvítnaði og reyndi að stama eitthverju upp úr sér...

"Ekkert rugl Gúnter", hrópaði foringinn..."Þú gerir það sem ég segi; I am going to the Bahamas".

Það síðasta sem sást til Gúnters var með naglbít í höndunum og blóðtauma í munnvikum. Eva beið við hlið hans og kíkti á klukkuna.


Fyrsta glerblástursverkstæðið á Íslandi þar sem er opið fyrir gesti og gangandi

Jæja, þá fer að koma að því. IceGlass, fyrsta opna glerblástursverkstæðið á Íslandi opnar í kringum 20. ágúst að Grófinni 2 í Keflavík. Þegar ég segi "opið" á ég við að það er gestum og gangandi fullkomnlega frjálst að reka inn nefið og fylgjast með því þegar glerið er blásið og formað, þetta hefur hingað til ekki verið hægt hér heima.

Hægt er að panta sér glermuni út frá eigin óskum hvort sem er til gjafa eða til eigin nota og einnig verður um stórt úrval muna til sýnis og sölu á staðnum. Vinnuhópar, skólar og svo framvegis geta einnig pantað tíma á verkstæðinu þar sem fólki gefst færi á að prófa sig fram við þessa heillandi iðn, að sjálfsögðu undir góðri leiðsögn.

Við mæðginin, ég og Gulla, höfum starfrækt verkstæði af þessu tagi í Danmörku um árabil og nú er komið að því að skella þessu upp hér heima. Hendi upp nákvæmari opnunardagsetningu seinna.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband