Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Borgarmynd#1

Borgarmynd#1 

Þar sem hann sat á teppinu á götunni undir trénu
var hægt að versla:
A) Gömul pör af skóm, tiltölulega heillegum ásamt öðru sem klætt getur
mannslíkamann. Par af gallabuxum, jakka og stuttermaboli.
B) Tónlist af ýmsum toga, einkum og sér í lagi LP plötur, margar hverjar komnar vel til ára
sinna. Popp, rokk og diskó ráðandi. Innan um afar góðir gripir.
Allt á einn dollara.
C) Slitrur af húsgögnum. Mislaskaðir stólar (þrjú stykki) staflað í örlitla stæðu,
kommóðu og jafnvel standlampa (þó án skerms og ljósaperu).
D) Bækur, líklega 50 - 60 talsins.

Á daginn sat hann á teppinu undir trénu nálægt götunni. Útblástursreyktur af kurrandi umferðinni. Ferðaútvarpið stillt á hæsta hljóðstyrk. Lífstekinn að sjá og blökkumaður.

Á kvöldin færði hann sig um set. Tók teppið og ferðaútvarpið og settist upp við grásvarta veggi blokkarinnar sem gnæfði yfir. Fjall myndað af steypu og iðandi af mannverum. Vökul augu hans vöktuðu markaðinn litla. Stöðugur straumur, ójafn púls. Öngþveitið var stöðugt, eins og foss tengdur jökli, frussandi og eilíft.
Ég átti leið hjá og það nálgaðist miðnætti, hitinn ennþá óþægilegur. Þvalur og með
ugg fyrir nóttinni. Hönd mín vinstri spennt um höldur úttroðins poka fullan matvörum og drykkjarföngum.

"Get ég hjálpað þér um eitthvað herra", barst frá manninum á teppinu.

Ég gekk á braut með ferðaútvarpið sem ég fékk fyrir klink, skildi hann eftir brosandi en hvekktan þó. Sá hann aftur næsta dag á leið minni í sjoppuna og gat ekki annað en haft samviskubit yfir einhliða skiptunum. Hann kinkaði kolli til mín.


LOKAORÐ KAHILS

LOKAORÐ KAHILS (SPÁMANNLEG VITRUN) 

Slitið bros vekur kenndir um höfnun vitskerta þjóð,
og smáskeinur víðs vegar vitna um kellingaáflog.
Gleymdu ekki vægi einbúans sem býr hátt í hamrinum,
eða akurkonunni sem rakar saman tuggur.

Sólgeislamaukið smyrst yfir dali og voga,
árrisulum konungi farnast jafnan best.
Haukfránum augum skaltu horfa á móti tjallanum,
 
í ísköldu störukeppninni.


Ala skaltu börnin þín vel mín matvinnsluþjóð,
en þó ekki svo að afvelta verði af spiki.
Þá verða þau sem Hans og Gréta,
norninni að bráð í heitum ofninum.
Vor ber að vitum, fuglar spranga um skógarbotn,
tíst þeirra ámáttlegt styrkist er sumarið líður.
Hnífskörpum hlustum beittu til fulls,
til að hlera uppi fiff og pretti til að maka krókinn.

Gefðu ekki upp augljóst trompið elskulega þjóð,
haltu í galdrastafina sem sykursjúklingurinn í insúlínið.
Mundu að bregða á stökk þegar skimtir í blóðhunda,
erlenda sem raka vilja af þér hárið og alþjóðavæða.
Það er ný öld framundan, lykt af brennisteini,
undanfari eldgossins sem skapa mun nýtt eyland.
Köllum það Greyland.


Þögult andsvar

þ ö g u l t    a n d s v a r  

og þegar það þrýtur
ertu auðveld bráð
nagandi efans

nema þú standir á þínu og hvikir ei

eins og steinninn sem stendur gegn öldunni
heldur sínum stað þó hann máist lítillega
við hvert stakt högg


eða fjallið gegn vindinum

sem þögult bekennir lögmálið


Portrett

portrett

ANDLIT HINS UNGA DRENGS

(hluti af portrett seríu í vinnslu)


Svarthvíti maðurinn

svarthviti

"Svarthvíti maðurinn" (Lárus Guðmundsson, Akrýll á striga, 60 x 30 cm, 2009)

Svarthvíti maðurinn (brot) 

hinn svarthvíti maður
lá örmagna flatur
á blóðstrætum

hrafnsvartur himinn
lá yfir og boðaði ógn

hin reikula Lukka
með djúprauðar varir
gaf puttann

hinn svarthvíti maður
var týndur í óminnissvefni

turnar
fátt nema turnar
í þessari borg
og liðast í einni lóðréttri línu
upp upp

það skreið um í sjávarhlustum
hins svarthvíta manns
klæjandi niður uppbrotinn af bíllúðrum og brotnu gleri
Hin svikula Lukka var drukkinn
sendi tóninn út í hringiðu af talandi munnum

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband