Og Tíminn gengur hljóðum skrefum inn um þínar dyr
20.1.2008 | 21:31
Ég ætlaði einu sinni að verða skáld. Það var þegar heimurinn var aðeins einfaldari og áður en ég komst að því að skáld þéna að jafnaði enga peninga. Það finnast gossjálfsalar út um allt en engir ljóðasjálfsalar; því miður. Ef svo væri væri heimurinn betri. Hér er lítið ljóð um tímann orðið ellefu ára gamalt. Njótið heilla !
UM TÍMANN (EÐA TÍMINN ER GAMALL MAÐUR MEÐ HARÐKÚLUHATT)
- Og Tíminn gengur hljóðum skrefum inn um þínar dyr,
þurrkar ekki af sér og skeytir ekki um boð.
Sá eini sem er heilagur og situr aldrei kyrr,
og þó svo að hann vingist við þig fer hann alltaf aftur.
Hann gerist oftast þaulsetnari en flestir aðrir gestir,
segir ótal sögur um tilveruna og þig.
Sá eini sem á orðið þegar allir eru sestir,
hann veit allt um alla en ekki neitt um sig.
Talandi hans er töfrandi og hrífur þig með sér,
táldreginn þú spyrð ekki um áfangastað.
Hann talar um heimskingjann er gröfina gróf sér,
með gleði á svip við sitt heimahlað.
Hann talar um svaninn er syngjandi flýgur,
frá alnyrsta heimskauti sólina í,
og örmagna hugsi er niður hann hnígur;
"allt þetta til að hitna á ný".
Sumt af þessu skilurðu, annað tekur tíma,
og þegar Tíminn stendur upp hneigir sig og fer,
finnurðu að þitt líf var aðeins lítil skammlíf skíma,
og veist um leið að Tíminn kveikti hana handa þér.
Athugasemdir
það er frábær hugmynd að setja upp ljóðasjálfsala.
Tíminn er furðulegt fyrirbæri,fer honum vel að vera með harðkúluhatt
Guðríður Pétursdóttir, 21.1.2008 kl. 02:14
Guðríður: Já kannski við ættum að fara í buisness saman ?
Ef Tíminn væri maður væri hann gamall, ofsalega vitur og með harðkúluhatt, hvað annað ?
Takk fyrir kíkkið...
Lárus Gabríel Guðmundsson, 21.1.2008 kl. 02:19
Alfa: Þú mátt ekki misskilja mig. Auðvitað finnast skáld sem þéna á tá og fingri. Þó held ég að rithöfundar eigi meiri möguleika á að lifa af list sinni en ljóðskáld.
Skemmtileg pæling með það að ritsmíðarnar séu til fyrir, að við séum þá bara móttakendur. Ég hef sjálfur haft svipaðar pælingar og útiloka ekki möguleikann. Hvernig útskýrir maður innblástur ?
Lárus Gabríel Guðmundsson, 21.1.2008 kl. 21:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.